Samráðsfundur 5. október: Fundarboð

Vilt þú starfa með Róttæka sumarháskólanum í vetur og næsta sumar? Komdu þá á samráðsfund!

Róttæki sumarháskólinn boðar til opins samráðsfundar sem haldinn verður sunnudaginn 5. október klukkan 14:00 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121 (4. hæð).

Fundurinn er opinn öllum og markmið hans er að leggja línur fyrir starfsemina í vetur og næsta sumar, einkum og sér í lagi að safna sjálfboðaliðum til ýmissa spennandi verkefna. Á fundinum verður skipuð stjórn fyrir starfsárið, sem er gert til að fullnægja lagalegum kröfum um félagasamtök, en meiningin er ekki að öll starfsemi RóSu fari í gegnum miðlæga stjórn eða framkvæmdahóp líkt og verið hefur. Þess í stað er stefnt að því að fela einstaklingum og minni hópum umsjón afmarkaðra verkenfna, en halda reglulega opna fundi þar sem samhæfing fer fram og stærri sameiginlegar ákvarðanir teknar.

Við viljum hvetja allt áhugasamt fólk til að íhuga hvort það geti hugsað sér að taka að sér einhver þeirra verkefna sem eru nefnd hér fyrir neðan, upp á eigin spýtur eða í félagi við fleiri. Þessi verkaskipting er engan veginn endanleg, og kann að breyast á fundinum og í starfinu sjálfu þegar líður á veturinn. Fólk má gjarnan koma með tillögur að nýjum verkefnum, og einn og sami hópur eða einstaklingur getur tekið að sér mörg verkefni, o.s.frv.

Við leitum sérstaklega að sjálfboðaliðum í eftirtalin verkefni:

 • Dagskrárstjórn sumardagskrár: Móta og skipuleggja dagskrá sumarsins 2015.
 • Dagskrárstjórn vetrardagskrár: Móta og skipuleggja vetrardagskrá veturinn 2014-15.
 • Kynningarstjórn: Kynning viðburða, fjölmiðlasamskipti, samstarf við önnur félagasamtök um kynningu viðburða.
 • Vefstjórn: Umsjón með heimasíðu, uppfærsla Facebook-síðu, umsjón með póstlista, önnur margmiðlun.
 • Tenging út fyrir Reykjavík: Mynda eða koma á tengslum við hópa utan Höfuðborgarsvæðisins og kanna möguleika á að skipuleggja viðburði þar.
 • Gjaldkeri: Umsjón með fjármálum, skila árlegu uppgjöri, halda utan um frjáls framlög.
 • Fundarritun: Skrá fundargerðir og halda utan um þær, útbúa skýrslu eftir starfsárið.
 • ‘Location manager’: Húsvarsla á viðburðum, umsjón með tækjabúnaði, lyklavöld o.s.frv.
 • Matarstjórn: Umsjón með matargerð á viðburðum, öflun matar með ruslun eða öðrum leiðum.
 • Skemmtanastjórn: Hafa frumkvæði að óformlegum hittingum og skemmtiviðburðum.
 • Pössunarstjórn: Umsjón og skipulagning á barnapössun á viðburðum.
 • Stjórnarseta: Helsta verkefni stjórnar er að boða til reglulegra funda og sjá til þess að upplýsingar flæði milli þeirra sem annast einstök verkefni.

Sjáumst sem flest sunnudaginn 5. október í fundarsal RA að Hringbraut 121, fjórðu hæð!

 

This entry was posted in Fréttir og tilkynningar, Vetrardagskrá 2014-2015. Bookmark the permalink.

Comments are closed.