Nei hæ! Nanna Hlín Halldórsdóttir

Á næstu vikum munum við kynna umsjónarfólk Róttæka sumarháskólans 2013 með laufléttum spurningaleik hér á síðunni, sem nefnist „Nei hæ!“. Nanna Hlín ríður á vaðið. Hún er sér um tvær námsstofur í sumar: Valdabaráttan í Hungurleikunum og Andóf gegn olíuvinnuslu.

Nafn, aldur, búseta …

„Nanna Hlín Halldórsdóttir en er að reyna að breyta því í nanna hlér hallgvuð, þar sem millinafnið er karlkyns og eftirnafnið er fyrri hluti nafna foreldra minna. Svo nota ég stundum nafnið Nannie Hall líka. Ég er á tuttugasta og níunda aldursári og bý í Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Þessa dagana þá er það sú flotta kona sem var Audre Lorde. Hvernig hún leyfir sér að skrifa persónulega en jafnframt fræðandi texta höfðar mjög til mín. Sú helsta hugsun sem ég dreg frá henni og er að marinerast í líkamanum mínum þessa dagana gengur út á að þú getur talað, æpt, haldið þrumandi ræður en það skiptir engu máli ef að engin er að hlusta. Að norm og venjur samfélagins eru þannig að þú ert fyrirfram dæmd úr leik vegna þeirrar (sjálfs)myndar sem aðrir hafa af þér ( kyn, litaraft, stétt osfrv.) Nú er ég að reyna að sjá hvar ég er ekki að hlusta en ég hef líka upplifað hitt, að hafa ríka þörf á að tjá mig en ekki hafa forsendurnar til þess að fá að miðla.“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Í aðdragana kosninganna fannst mér ég heyra vinstri-sinnað fólk í kringum mig spyrja gáttað útí loftið: Ég hef ekki hitt neinn fyrir sem er að fara að kjósa framsókn. Hvar er þetta fólk? Með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem lét þetta út úr sér á einhverjum tímapunkti (þar á meðal ég sjálf) þá þykir mér mikilvægt að róttækni í dag takist á við af hverju fólk hafi þörf á að spyrja þessarar spurningar … og hvernig það sé að skilgreina sjálft sig í leiðinni.

Mér þykir ennfremur mikilvægt að skoða af hverju fólk kaus framsókn í stað sjálfstæðisflokksins. Ég neita að trúa því að ástæðan sé aðeins slagorð þeirra um skuldavandamál heimilanna. Ég held að þar búi einnig að baki einhvers konar andóf, mótmæli og vilji til annars. Að sá vilji hafi aukið völd Framsóknarflokksins er hins vegar vandamál, að ég held, fyrir flest fólk í landinu (en kannski ekki auðmenn) og líka fyrir umhverfið.“

Fyrir hverja eru námsstofan og aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Ég er annars vegar með námstofnu um valdabaráttuna í Hungurleikunum. Þar þætti mér afar gaman að hitta fyrir brennheita aðdáendur bókanna! Hugsunin með námstofunni er að kynna fyrir fólki (og þá sérstaklega unga fólkinu) hvernig við getum hugað að samvinnu æ fleiri til róttækra breytinga með hjálp svo skemmtilega bókmennta!

Síðan tek ég einnig þátt í aðgerðastofu um umhverfisaktívisma en hugmyndir okkar snúa að því að mótmæla því strax að reyna að gera Ísland að olíuþjóð auk þess að setja á fót notendavæna heimasíðu um allt sem snýr að umhverfismálum.“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Jamie McQuilkin?

„Hvað með það fólk sem fann sinn sannleika (eða e-s konar sannleika) fyrir 10-20-30 árum og er ekki tilbúið til róttækt nýrra gerða af samvinnu? Hvernig get ég (kannski) fengið það til að endurskoða sannleika sinn án þess að boða nýjan sannleika?“

[„What about people who found their truth (or some kind of truth) 10, 20 or 30 years ago, and are not ready for radically new forms of cooperation? How can I (maybe) get them to reconsider their truth without preaching a new truth to them?“]

This entry was posted in Fréttir og tilkynningar, Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.