Nei hæ! Svandís Anna Sigurðardóttir

Svandís Anna Sigurðardóttir

Næsti þátttakendi í spurningaleiknum „Nei hæ!“ er Svandís Anna, ein þeirra sem sjá um námsstofuna Pallíettubyltingin: Hinsegin aktívismi á tímamótum. Hún svaraði laufléttum spurningum, þar á meðal einni frá Andra Þorvaldssyni, og lagði sína eigin spurningu fyrir Tom Ellington.

Nafn, aldur, búseta:

„Svandís Anna Sigurðardóttir. 31. árs. Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Það er svo mikið af öflugu fólki sem hefur barist fyrir jafnrétti og þorað að standa upp og láta í sér heyra. Rauðsokkurnar veita mér innblástur, það er magnað að skoða það sem þær voru að berjast fyrir og þeirri hugsun sem þær börðust gegn (og hversu fáránleg hún þykir í dag – ja, af mörgum!). Svo er ég alltaf mjög hrifin af Judith Butler, sem er kannski klassískt fyrir manneskju sem heillast af hinseginfræðum. Einnig hreyfingunni Queer Nation sem myndaðist í BNA þegar alnæmisfaraldurinn braust út. Svo finnst mér hún Kate Bornstein alveg frábær!“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Ég held að það sé alltaf stöðugt flæði af fréttum sem minna á að róttækar breytingar séu nauðsynlegar. Nýlega fékk ég þó sting í hjartað að sjá hræðileg lög í Rússlandi verða að veruleika, sem eru liður í því að útrýma hinsegin fólki þar í landi. Mér finnst við vera að fylgjast með mjög augljósum skrefum í þá átt að framið verður eins konar ‘þjóðarmorð’, ef svo má kalla, á hinsegin fólki þar í landi. Að öðru leyti fæ ég alltaf smá hroll þegar fólk talar um hvað við hér á Íslandi erum æðisleg þegar kemur að hinsegin fólki og réttindum sem þeim hefur verið ‘gefið’. Þó svo að löggjöfin sé þokkaleg og líkamlegt ofbeldi í lágmarki, þá búum við ekki í hinsegin paradís, langt því frá!“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Fólk sem vill skoða svokallað ‘norm’ eða ríkjandi ástand og hugsun, ásamt því hvernig íslensk hinsegin barátta hefur verið höfð og hvernig má breyta og bæta hana. Þetta verður gert með því að beina sjónum að Gleðigöngunni, þannig að námsstofan er klárlega fyrir fólk sem fylgist með göngunni og vill ekki sjá hinsegin baráttu á Íslandi staðna.“

Spurning frá Andra Þorvaldssyni, samkennara þínum: Ef þú værir ekki að fjalla um gleðigönguna, hvað myndir þú þá vilja fjalla um?

„Ætli ég væri ekki að beina sjónum að aðlögun hinsegin baráttunnar að gagnkynhneigðu normi, hvernig íslensk hinsegin barátta hefur náð árangri með því að segja og sýna ‘við erum alveg eins og þið’, en um leið kannski fela og missa það sem mætti teljast hluti af hinsegin menningu (hver sem hún svo er), missa frelsið til að vera öðruvísi og í raun hinsegin, og jaðarsetja enn frekar það fólk sem vill ekki vera ‘alveg eins og þið’.“

Hvaða spurningar myndir þú vilja spyrja Tom Ellington, samkennara þinn? // A question for your co-instructor, Tom Ellington:

„Do you think we are constantly on the brink of a nuclear war? Oh, and how do you like Iceland?“

Svandís Anna Sigurðardóttir er kynjafræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hún hefur haft umsjón með námskeiðinu „Hinseginlíf og hinseginbarátta.“ Hún er ritari Samtakanna ‘78.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

One Response to Nei hæ! Svandís Anna Sigurðardóttir

  1. Pingback: Nei hæ! Andri Þorvaldsson | Róttæki sumarháskólinn