Nei hæ! Finnur Guðmundarson Olguson

Í dag er það Finnur Guðmundarson Olguson, annar þeirra sem sjá um námsstofuna Andóf gegn olíuvinnslu, sem stígur á stokk í spurningaleiknum Nei hæ! Hann segist vera Nietzsche-maður, svaraði spurningu frá Viðari Þorsteinssyni, og lagði spurningu fyrir Egil Arnarson.

Nafn, aldur, búseta:

„Finnur Guðmundarson Olguson, 27 ára, Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Ég er mikill Nietzsche-maður og kann að meta heimspeki sem reynir að gera ráð fyrir hversu mótsagnakennd manneskjan er og hvernig algildur mælikvarði á t.d. siðferði, hamingju og fullkomnun er ómögulegur. Að því sögðu, verandi mótsagnakenndur, þá er ég líka mjög veikur fyrir fólki sem hefur haft óbilandi trú á einhvers konar „betri heim“. Harvey Milk hefur kveikt í mér oftar en tekur að nefna, Victor Jara líka. Annars eru það yfirleitt ritverk eða tónverk sem veita mér innblástur frekar en persónur. Mómó veit ég t.a.m. að er mikilvægasta bók sem ég hef lesið.“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Já, í raun margt, en ekki síst þessi laumulega áætlun stjórnvalda síðan 2001 að gera Ísland að olíuríki. Þar er yfirgangurinn svo augljós; engum dettur í hug að spyrja um skoðun almennings og allt í einu hefur einhverjum sérleyfum verið úthlutað til mjög vafasamra aðila sem eiga nú að stýra okkur í átt að nýjasta gullkálfinum. Er ekki þörf á að grípa inn í?“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Alla sem hafa vilja til að hefja andóf gegn olíuleit og -vinnslu, hvaða ástæður sem fólk hefur og aðferðir það vill beita. Fólk sem vill framkvæma hugmyndir sínar og annarra þar að lútandi. Ekki fólk sem vill ræða í löngu máli um kosti og galla olíuvinnslu – það er ekki á dagskrá í þessari aðgerðastofu.“

Spurning frá samkennara þínum, Viðari Þorsteinssyni: Heldurðu að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar muni auka áhuga fólks á róttækri vinstripólitík á næstu árum?

„Nei, í raun ekki nema mögulega til skamms tíma. Og ef svo er mun áhuginn einn og sér sennilega hafa lítið að segja svo lengi sem valdaójafnvægi gegnsýrir menningu okkar og við millistéttin getum bæði borðað á Holtinu og mótmælt á Austurvelli. Það er mín persónulega trú að loftslagsbreytingar séu viðamesta og mest aðkallandi vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Það er mjög mikilvægt að vinstrið, hægrið, miðið, uppið og niðrið reyni að tækla þær ógnir með nær öllum ráðum. Ég vona að umhverfisníð núverandi ríkisstjórnar muni kveikja í fólki, en að mínu mati ætti fólk fyrst og fremst að læra að hunsa ríkisstjórnir, vinstri eða hægri. Þær verða aldrei róttækar, alltaf of seinar, alltaf of hægar.“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Egil Arnarson?

„Er forræðishyggja nauðsynleg vinstristefnu?“

Finnur Guðmundarson Olguson hefur numið heimspeki og húsgagnasmíði á milli þess sem hann hefur unnið margvísleg störf, m.a. við umönnun og aðstoð við fatlaða, malbikun, húsamálun, þýðingar og garðrækt.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

One Response to Nei hæ! Finnur Guðmundarson Olguson

  1. Pingback: Myndir frá aðgerðastofunni Andóf gegn olíuvinnslu | Róttæki sumarháskólinn