Nei hæ! Hafdís Erla Hafsteinsdóttir

Spurningalestin „Nei hæ!“ brunar enn sem fyrr. Nú er það Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sem tekur við keflinu, svarar spurningu frá Viðari Þorsteinssyni, og leggur spurningu fyrir þann sama. Námsstofa hennar, í umsjá tveggja annarra, nefnist Pallíettubyltingin: Hinsegin aktívismi á tímamótum.

Nafn, aldur, búseta:
„Hafdís Erla, 28 ára sagnfræðinemi í Vínarborg.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?
„Rósa Parks sem og öll hin sem sögðu einfaldlega „nei“.  Fegurðin býr í hversdagsleikanum.“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?
„Um daginn sótti ég pallborðsumræður um hugmyndafræði og aktívisma Audre Lorde. Við pallborðið sátu hinar ýmsu fræðikonur frá allri Evrópu og ræddu af innlifun um líf og störf Lorde í meira en tvo tíma án þess að minnast á það einu orði að hún var lesbía. Samt var sirka helmingurinn af áheyrendum lesbíur. Og nær allir þátttakendur í pallborðinu líka.“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?
„Námsstofan er fyrir öll þau sem hafa áhuga á að skoða hinsegin baráttu í gagnrýnu ljósi.“

Spurning frá Viðari Þorsteinssyni: „Áttu Samtökin 78 að þiggja Frelsisverðlaun SUS sem þeim voru veitt í síðasta mánuði?“
„Þetta er áhugaverð spurning og vonandi vinnst okkur tími í námsstofunni til að ræða hana. Ég tel að það hefði verið mjög erfitt fyrir Samtökin 78 að neita að taka við verðlaununum þar sem Samtökin eru hagsmunasamtök samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi og starfa í grunnin óháð flokkapólitík. Hinsvegar er kríterían á bak við þessi frelsisverðlaun harla óljós og mig grunar að himinn og haf sé á milli skilings ný-frjálshyggju hægrisins og hinsegin fólks á hinu útþynnta hugtaki „frelsi“.“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Viðar Þorsteinsson?
„Hvar sérð þú RóSu eftir 10 ár? eða 20?“

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir er mastersnemi í kvenna- og kynjasögu við Háskólann í Vínarborg. Hún hefur tekið þátt í hinsegin félags- og aðgerðastarfi á Íslandi og erlendis síðustu ár.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

Comments are closed.