Nei hæ! Egill Arnarson

Næstur í Nei hæ! er Egill Arnarson, umsjónarmaður námsstofunnar með hinn skemmtilega titil Er vinstristefna of hrokafull? Egill svarar spurningu frá Finni og leggur eina fyrir Ray. Hann segir námsstofuna sína vera fyrir alla sem langar að ræða hvað vinstrið stendur fyrir og hvort það sé að gera eitthvað vitlaust.

Nafn, aldur, búseta:

„Egill Arnarson, 39 ára, búsettur í Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Ég á svolítið erfitt með að svara spurningunni. Mér finnst ég vera nokkuð óforbetranlegur Hegel-sinni og beinlínis bíða jafnt í stóru sem smáu eftir andþesu á eftir þesu og svo synþesu sem kalli á nýja andþesu. Það sé með öðrum orðum jafnan einhver ósigur í sigri og vísir að sigri í ósigri. Ekki það að þetta sé endilega heilnæmur hugsunarháttur – maður verður ekki endilega „innblásinn“ af því að líta svona á hlutina! Þess vegna reyni ég að kynna mér hugmyndir sem eru afdráttarlausari (og segja hvítt vera hvítt og svart vera svart en ekki hvort tveggja hluta af gráum lit). Þar held ég að umfram aðra hafi Alain Badiou verið mér talsverður innblástur, en hann telst vera bæði hugsuður og aktívisti, þótt ég hafi að vísu meiri efasemdir um aktívisma hans …“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

Eru afhjúpanir Snowdens og viðbragðaleysið við þeim ekki til marks um að það sé kominn holur hljómur í hugmyndum okkar um friðhelgi einkalífsins? Og einnig til marks um að ef við ætlum að standa vörð um þessar gömlu frjálslyndu hugmyndir þurfum við að gera eitthvað róttækt? Kannski er þetta til marks um að skilin eru ekki alltaf hin sömu milli þess hvað telst róttækt og hvað ekki.“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Fyrir alla sem langar að ræða hvað ‘vinstrið’ stendur fyrir og hvort þeir sem kenna sig við það séu að gera eitthvað vitlaust. Það er að segja, vinni að einhverju leyti gegn yfirlýstum markmiðum sínum.“

Spurning frá samkennara þínum, Finni: „Er forræðishyggja nauðsynleg vinstristefnu?“

„Það gæti bara vel verið! Ef við skiljum forræðishyggju sem tilhneigingu til þess að beita lögmætu valdi til þess að fá fólk til þess að aðhyllast vissar skoðanir umfram aðrar, þá erum við hvorki að tala um ofbeldi né almennan besservissera-hátt, heldur um ‘uppfræðslu’ um réttmæti ákveðins sjónarhóls umfram aðra. Þar sem vinstrimenn líta svo á að hinn manngerði veruleiki (samfélagið, efnahagslífið og annað þess háttar) hafi frekar hvatt fólk til þess að aðhyllast einstaklingshyggju, þá reyna þeir gjarnan að breyta þeirri ‘kerfisskekkju’ til þess að opna augu fólks fyrir öðrum viðhorfum eða jafnvel boða að þau viðhorf séu réttmætari. Ég fæ ekki betur séð en að í aðalnámskrá eigi þannig að veita nemendum ‘menntun til sjálfbærni, jafnréttis, lýðræðis- og mannréttinda’, án þess að fólki finnist það lengur vera einhver hrikaleg innræting. En þýðir það að forræðishyggja sé nauðsynleg vinstristefnu? Tja, það væri kannski bara gott að prófa fleiri aðferðir til þess að breiða út fagnaðarerindið …“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Ray Acheson?

„From the recently adopted UN Arms Trade Treaty – do you expect great things?“

Egill Arnarson er M.A. í heimspeki, sagnfræði og latínu frá háskólanum í Kiel. Hann hefur fengist við þýðingar og greinaskrif á sviði heimspeki.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

Comments are closed.