Nei hæ! Hlöðver Sigurðsson

Hlöðver Sigurðsson sér um námsstofuna Gegn kapítalisma og ríkisvaldi: Anarkó-kommúnismi og stofnun vefrits ásamt Andra Þorvaldssyni. Hann er hlynntur algjöru efnahagslegu og siðferðislegu frelsi, og segist í raun vera hippi án klæða. Hlöðver svaraði nokkrum spurningum, og lagði spurningu fyrir Sólveigu Önnu Jónsdóttur.

Nafn, aldur, búseta:

„Hlöðver Sigurðsson, 23 ára, Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Þeir sem hafa veitt mér mestan innblástur í aktívisma hafa verið aðrir Íslendingar eins og Guðjón Heiðar Valgarðsson og Þórarinn Einarsson. Ég lít alltaf mikið upp til hippanna og er í raun hippi án klæða, hugmyndin um algjört frelsi siðferðislega og efnahagslega er mér ofarlega í huga. Spekingar sem eru í uppáhaldi hjá mér eru Bertrand Russell, Noam Chomsky, George Orwell og Buckminster Fuller, til að nefna nokkra.“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Mikilvægustu fréttirnar eru þær sem komast alltof sjaldan á forsíðuna. Það þykir til dæmis ekki merkilegt að 75% öryrkja á Íslandi eru með geðraskanir, samanborið við að mest lesna frétt á mbl.is á sama degi er að köttur hoppar inn um glugga hjá íbúa í Kópavogi. Félagsleg vandamál eins og alkóhólismi, sprautufíkn, fátækt, lág laun, ofurháir vinnutímar, stéttaskipting, örorka og geðvandamál er eitthvað sem ég vil gjörbreyta og laga. Það verða aðrir að vilja líka.“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Helst fyrir íhaldsamt vinstrifólk, þar flokka ég krata og marxista saman. Áhugavert fyrir skoðanabræður og -systur mínar. Væntanlega martröð fyrir hægrisinnaða íhaldsmenn og fasista en það er aldrei of seint fyrir þau að sjá ljósið. En markmiðið er að gera róttækara vinstri afl á Íslandi en núna þekkist með frjálshyggju að leiðarljósi. Þessvegna er stjórnleysisstefnan leið sem allir hugsandi menn og konur ættu að þekkja, en flest fólk veit þó ekki að það veit ekki neitt um þá hugmyndafræði.“

Spurning frá samkennara þínum, Tom Ellington: „What lessons did you learn from the Occupy Reykjavik movement? Knowing what you know now, are there things you would do differently if you had the chance to start again?“

„Ég lærði margt, maður kemst langt á þrjósku en hún ein dugar ekki. Til þess að aktívismi gangi upp þarf hann að vera skipulagður og samstiga. Við sem vorum nógu þrjósk að halda uppi Occupy á Austurvelli vorum hvorki skipulögð né samstíga, sjálfsagt eru skiptar skoðannir á því. En þetta var rosa gaman og aktívistar alls staðar að komu saman og deildu hugmyndum sem var sigur fyrir grasrótarstarf á Íslandi.“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Sólveigu Önnu Jónsdóttur?

„Sérðu bein tengsl á milli heimsvaldastefnu BNA og kapitalisma. Eða eru þetta aðskildir hlutir að þínu mati?“

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

One Response to Nei hæ! Hlöðver Sigurðsson

  1. Pingback: Andri og Hlöðver í Harmageddon | Róttæki sumarháskólinn