Nei hæ! Þorvaldur Þorvaldsson

Þorvaldur Þorvaldsson settist í spurningasætið. Hann minnti á orðin sem rituð eru á legstein Karls Marx, um að markmið fræðanna sé ekki að lýsa heiminum heldur að breyta honum. Þorvaldur sér um námsstofuna Félagsvæðing fjármálakerfisins.

Nafn, aldur, búseta:

„Þorvaldur Þorvaldsson, 55 ára, Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Ég býst við að ég hafi fengið mestan innblástur frá Marx og Lenín. Einnig ýmsum fleirum, svosem Rósu Luxemburg, Dimitrov og fleiri mætti nefna. Þetta ræðst auðvitað nokkuð af því hvað maður les á hverjum tíma.

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Það er margt úr fréttum og umræðu undanfarið sem hefur undirstikað nauðsyn róttækra breytinga. Þá ekki síst það sem vantar í fréttirnar. Umfjöllun um umhverfismál hefur verið talsverð nýverið en vandlega er sniðgengið að fjalla um hvernig krafa auðmagnsins um hámarksgróða og stækkun hagkerfisns ógnar vistkerfi jarðarinnar. Þó fjölmiðlungum sé ítrekað bent á þetta er það eins og að skvetta vatni á gæs. Nýleg umfjöllun um væntanlegt samkomulag um frekari útþenslu lífeyrissjóðanna leiðir hugann að þeirri áráttu undanfarinna ára að leysa vandamál með því að auka við orsakir þeirra sömu vandamála. Þetta eru tvö dæmi eftir minni um þær þversagnir og aðrar ógöngur sem opinber umræða hefur verið hneppt í undanfarin ár, jafnvel enn meira en fyrr.“

Fyrir hverja er námsstofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Hún er fyrir alla sem hafa áhuga á að tengja saman fræðilega og praktíska umræðu og leiða hana að samstöðu um pólítísk markmið alþýðunnar til lengri og skemmri tíma. Hún er frekar fyrir þá sem hafa hugsjónalegan en akademískan áhuga á sósíalismanum. Á legsteini Karls Marx stendur sem svo að ‘Félagsfræðingar hafa verið uppteknir af því að lýsa samfélaginu, en aðalatriðið er að breyta því’. Það hefur oft verið sterk tilhneiging til að færa umræður um sósíalisma í búning uppskrúfaðrar fræðimennsku en þegar kemur að því að setja raunhæf markmið í baráttunni er miðað við það sem auðvaldið sættir sig við. Ég ætla að brjóta í bága við þetta. Með örlítið ljóðrænu orðalagi gæti yfirskriftin verið á þessa leið: Látum við okkur nægja að vera steinn í skóm auðvaldsins eða eigum við að klæða það úr skónum og gefa því kost á að ganga berfætt í gegnum lífið eins og við hin?“

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Kristinn Má Ársælsson?

„Er efnahagslegt lýðræði mögulegt innan þess ramma að allt hagkerfið sé ofurselt markaðslögmálum kapítalismans?“

Þorvaldur Þorvaldsson er trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

One Response to Nei hæ! Þorvaldur Þorvaldsson

  1. Pingback: Félagsvæðing fjármálakerfisins | Róttæki sumarháskólinn