Nei hæ! Sólveig Anna Jónsdóttir

„Það er bara þrennt hægt þegar maður hlustar á fréttir: að hlæja, gráta eða hugsa um róttækar breytingar.“ Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sér um tvær námsstofur á Róttæka sumarháskólanum í ár. Þær nefnast Niður með auðvaldið! Um andkapítalíska baráttu innan íslenska vinstrisins, sem Sólveig skipuleggur ásamt Viðari Þorsteinssyni, og Afganistan: Gjald hefndarinnar þar sem boðið verður upp á bíósýningu og umræður um vestræna íhlutunarstefnu. Sólveig svaraði spurningu frá Hlöðver Sigurðssyni og sagði reitt fólk oft vera hressandi.

Nafn, aldur, búseta:

„Sólveig Anna Jónsdóttir, 38, Reykjavík.“

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Ég verð bara alltaf mjög djúpt snortin þegar ég les um fólk sem segir hingað og ekki lengra. Afþví það er alveg hægt að liggja endalaust uppí rúmi eða útí haga og vera leið yfir því hvað veröldin er hræðilega óréttlát eða passa sig á því að hugsa aldrei um ömurlegheitin og einbeita sér að jákvæðni eða einhverju svoleiðis ópíumi. Þegar ég las ævisögu Frederick Douglass varð ég til dæmis mjög uppnumin; sumt fólk geturðu reynt að lemja í klessu en á endanum segir það hingað og ekki lengra og þá er eins gott að passa sig. Ég varð líka mjög hrifin af Elizabeth Cady Stanton þegar ég las ævisögu hennar. Í staðin fyrir að fara í fýlu afþví Susan B. Anthony gat þvælst um allt og Elizabeth þurfti að vera heima að eignast börn hugsaði hún fullt af stærstu og merkilegustu hugsunum í heimi. Svo er ég mjög hrifin af allskonar gömlum köllum, Karli Marx og Jesú, og blessuðum dýrlingnum Che Guevara.

Mér finnst gaman að lesa einn gamaldags reiðan kommúnista, William Blum, reitt fólk er oft hressandi. Og ég elska Boots Riley. Og svo hitti ég Noam Chomsky um daginn og fattaði að ég elska hann. Þegar ég las the Coming Insurrection upplifði ég líka ástartilfinningu. Og margt og margir í viðbót! Ég er mjög hrifnæm.“

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Það er bara þrennt hægt þegar maður hlustar á fréttir: að hlæja, gráta eða hugsa um róttækar breytingar. Ég bjó í Usa frá 2000-2008 og eyddi allt of miklum tíma í að gráta yfir fréttum. Ég er alveg hætt því. Ég hlæ stundum smá en yfirleitt hugsa ég nonstop um nauðsyn róttækra breytinga. Rétt í þessu var ég til dæmis að horfa á frétt um höfuðborg norðursins, Akureyri, sem er á hausnum vegna reksturs á íþróttamannvirkjum og lánaafborgunum og þarf þessvegna mikið meira af svokölluðu aðhaldi og niðurskurði.  Segjum upp fólki svo við getum haldið íþróttamót! Svo skipti ég yfir á American Funniest Home Videos og þar kúkaði hundur á gólfið og kúkurinn var blörraður! Ahahahaha! Alveg eins og helvítis nýfrjálshyggjan er alltaf blörruð. Róttækar breytingar núna!“

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Ég er ekki alveg viss. Fyrir mig sjálfa, ég neyðist til að undirbúa mig og læri þá vonandi eitthvað merkilegt. Allavega á ég eftir að læra eitthvað af Viðari. Og bíósýningin er fyrir þau sem leiðist imperíalisminn og blóðsúthellingarnar sem fylgja honum og vilja hitta aðra sem líður eins.“

Spurning frá Hlöðver Sigurðssyni: „Sérðu bein tengsl á milli heimsvaldastefnu BNA og kapitalisma. Eða eru þetta aðskildir hlutir að þínu mati?“

„Já, ég sé mikil tengsl. Innrásin í Írak var til dæmis svakaleg kapítalísk tilraun. Þó að Bush og co hefðu verið algjörir fáráðlingar þegar kom að hernaðarlegri strategíu, ekki ‘members of the reality based community’, pössuðu þeir samt mjög vel uppá að hægt væri að græða á öllu. Kaflinn um Írak í Shock Doctrine eftir Naomi Klein lýsir þessu mjög vel; hlussustór einkvaæðingar- og gróðatilraun sem tókst nokkuð glæsilega þrátt fyrir ömurlegan árangur í lýðræðis- og umbreytingarstarfinu. Menn eru kannski ekkert mjög flinkir í heimsvaldapotinu en þeim tekst oftast að passa uppá að peningarnir flæði, jafnvel hraðar en blóðið.“

Sólveig Anna Jónsdóttir er róttækur sósíalisti. Hún er meðlimur í Attac á Íslandi og situr í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.