Nei hæ! Kristinn Már Ársælsson

„Það er umhugsunarvert hvers vegna fyrirtæki eru ekki rekin lýðræðislega og af hverju flestar meginreglur lýðræðisins gilda ekki á sviði efnahagslífsins“, segir Kristinn Már Ársælsson. Hann er umsjónarmaður námsstofunnar Lýðræðisleg fyrirtæki og hagkerfið. Hann svaraði spurningum í okkar hressa spurningaleik, þar af einni frá Þorvaldi Þorvaldssyni, og lagði spurningu fyrir Írisi Ellenberger.

Nafn, aldur og búseta:

Kristinn Már Ársælsson, 34, Hurðarbaki (nei því miður bara Reykjavík).

 

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

Lengi vel las maður aðallega það sem hugsuðir (aðallega karlar) fortíðar höfðu að segja. Montaigne, Nietzsche, Durkheim, Veblen, Marx, Mill, Sókrates (Plató) og svo mætti lengi telja. Og þótti snjallt og skemmtilegt. Undanfarin ár hef ég minni áhuga á hugsuðum fortíðar því það er svo margt spennandi og í mörgum tilvikum miklu betra efni til hjá hugsuðum samtímans og undanfarinna áratuga. Rannsóknir á lýðræði eru t.d. mjög skammt á veg komnar en miklar framfarir á undanförnum árum. Sá hugsuður sem veitir mér mestan innblástur í dag er Helena Landemore, stjórnmálafræðingur við Yale.

 

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

Það eru fréttir nær daglega sem leiða hugann að nauðsynlegum breytingum á núverandi samfélagsgerð. Undanfarið hef ég lítið fylgst með fréttum en þegar ég heyri fréttir hugsar ég um fréttamat og gæði þeirra frétta sem fram eru færðar og hversu mikið verk er fyrir höndum hvað það varðar. Annars var hrun fjármálakerfisins á Vesturlöndum 2007-2008 atburður sem hreyfði við mér og öðrum, opnaði augu fleira fólks fyrir göllum kerfisins og skapaði tækifæri til að ræða breytingar.

 

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

Námsstofan er fyrir alla sem hafa almennan eða sértækan áhuga á lýðræði. Það er umhugsunarvert hvers vegna fyrirtæki eru ekki rekin lýðræðislega og af hverju flestar meginreglur lýðræðisins gilda ekki á sviði efnahagslífsins. Ég mun reyna að fara í grófum dráttum yfir lýðræðisleg fyrirtæki sem fyrirbæri og ræða rannsóknir á þeim sem og velta vöngum yfir skorti á lýðræði á þessu veigamikla sviði flestra samfélaga, hagkerfinu.

 

Hvað spurningu myndir þú vilja leggja fyrir tilvonandi samkennara þinn, Írisi Ellenberger?

Verður cis gagnkynhneigða regluveldið brotið á bak aftur með nýjum kynslóðum eða er hægt að kenna gömlum hundum að sitja?

 

Spurning frá Þorvaldi Þorvaldssyni: „Er efnahagslegt lýðræði mögulegt innan þess ramma að allt hagkerfið sé ofurselt markaðslögmálum kapítalismans?“

Svarið við þessari spurningu er efni í bók eða ritröð jafnvel. Fyrstu kaflarnir færu í að skilgreina hugtök. Ég efast t.d. um að til séu lögmál á markaði. Og það nákvæmlega hvernig útfæra megi lýðræðislegt hagkerfi (framleiðslu- og dreifingarkerfi) er ein þeirra spurninga sem ég hef hvað mestan áhuga á.

Stutta svarið er að núverandi kerfi er að meginstefnu til undanskilið leikreglum lýðræðisins og því nauðsynlegt að gera á því breytingar.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.