Nei hæ! Íris Ellenberger

Íris Ellenberger, ein af umsjónarkonum Pallíettubyltingarinnar, kom í spurningaleikinn okkar og svaraði m.a. spurningu frá Kristni Má Árælsssyni. Íris segir að við þurfum að hugsa heildstætt um stöðu hinsegin fólks, hætta að leggja áherslu á réttarbætur fyrir vel stætt millistéttarfólk og fara að huga að þeim sem eru jaðarsett á fleiri en einn hátt.

Nafn, aldur, búseta:

Íris Ellenberger, 35 ára, Reykjavík

 

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

Allar konurnar sem stóðu að baki stofnun Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Kvennaráðgjafarinnar og þeim sem hafa unnið með samtökunum í öll þessi ár. Starf þeirra er mjög róttækt og hefur haft mikil áhrif á líf fjölmargra kvenna. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt það hefur verið halda þessu starfi úti og allan skítinn sem þær hafa fengið í gegnum tíðina. En ætli þær eigi ekki stærstan heiðurinn að þeirri vakningu um kynferðisofbeldi sem hefur orðið á síðustu misserum. Ég ber botnlausa virðingu fyrir þessum konum.

 

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

Þegar hæstirétti Bandaríkjanna felldi DOMA úr gildi og greiddi þannig fyrir hjónaböndum samkynhneigðra afnam þessi sami hæstiréttur lög sem tryggðu að svartir Bandaríkjamenn sætu við sama borð og hvítir í kosningum og einnig lög sem komu í veg fyrir að börn indíána í landinu væru tekin af heimilum þeirra og send í fóstur fyrir utan samfélag sitt. Hvítt millistéttar hinsegin fólk fékk þannig aðgang að hjónabandinu á meðan hinsegin fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum þarf áfram að berjast við kúgun og jaðarsetningu af hálfu ríkisvaldsins. Þetta sannfærði mig um að við þurfum að fara að hugsa heildstætt um stöðu hinsegin fólks, hætta að leggja áherslu á réttarbætur fyrir vel stætt millistéttarfólk og fara að huga fyrst og fremst að þeim okkar sem eru jaðarsett á fleiri en einn hátt.

 

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

Alla sem vilja fræðast um forréttindi sín, cis gagnkynhneigða regluveldið og aðlögun hinsegin fólks að norminu svo dæmi séu tekin. Einnig fyrir allt hinsegin fólk sem vill breinstorma um aðgerðastarf og skoða stöðu hinsegin fólks á Íslandi frá gagnrýnum sjónarhóli.

 

Spurning frá samkennara þínum, Kristni Má Ársælssyni: „Verður cis gagnkynhneigða regluveldið brotið á bak aftur með nýjum kynslóðum eða er hægt að kenna gömlum hundum að sitja?“

Cis gagnkynhneigða regluveldið verður örugglega ekki kveðið í kútinn á mínum líftíma. Það krefst grundvallarbreytinga á viðhorfi fólks til kynja, kynhlutverka og kynímynda sem eru svo inngróin í hugmyndir okkar um lífið og tilveruna að það mun reynast erfitt að fá fólk til að sleppa hendinni af þessum „viðteknu sannindum“. Ég er ekkert viss um að nýjar kynslóðir séu lykillinn að því að brjóta cis gagnkynhneigða regluveldið á bak aftur. Ungt fólk getur alveg verið íhaldssamara en eldri kynslóðir. Við þurfum að berjast á öllum vígstöðvum og höfða til allra tegunda af fólki ef okkur ætlar að verða eitthvað ágengt og megum ekki sofna á verðinum.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

Comments are closed.