Nei hæ! Viðar Þorsteinsson

Viðar Þorsteinsson

Viðar Þorsteinsson svaraði nokkrum spurningum. Hann segir námsstofuna sem hann og Sólveig Anna Jónsdóttir standa fyrir – Niður með auðvaldið! – vera fyrir alla sem eru gagnrýnir á kapítalískt þjóðskipulag. „Ég áttaði mig á því að án sterkrar andkapítalískrar sannfæringar, hjá stórum hópi almennings, getur vinstripólitík ekki náð neinum árangri í baráttunni við auðvaldið“, segir Viðar.

 

Nafn, aldur, búseta:

„Viðar Þorsteinsson, 33 ára, Bandaríkin (Norður-Karólína og Ohio) og Þingeyjarsýsla.“

 

Hvaða aktívisti eða hugsuður úr fortíðinni veitir þér innblástur?

„Það veitir mér oft byr undir vængi að hugsa um venjulegt íslenskt launafólk um miðja tuttugustu öld sem tók þátt í verkalýðsbaráttunni, með sósíalískar og kommúnískar hugsjónir að leiðarljósi. Afi minn Vilhjálmur Þorsteinsson, sem var hafnarverkamaður og aktívisti í verkamannafélaginu Dagsbrún, lést því miður áður en ég náði að kynnast honum að ráði. En það sem ég hef lært um hans lífshlaup og pólitísk störf er mér mikill innblástur. Afi var dæmigerður íslenskur strákur úr sveit sem flutti til Reykjavíkur í kreppunni, og bjó við ömurleg kjör en sá svo aðbúnað verkafólks taka byltingarkenndum framförum á örfáum áratugum. Þessi árangur náðist ekki af því að kapítalistar og miðjumenn væri svo örlátir, heldur útaf harðri baráttu verkafólks, með verkfallið að vopni, þar sem stjórnmálaflokkar á þingi voru ekki endilega ráðandi afl.“

 

Er einhver nýlegur atburður úr fréttum eða umræðunni, sem fengu þig til að hugsa sérlega sterkt um nauðsyn róttækra breytinga?

„Hrunið var stór vekjaraklukka, en ég held að á endanum hafi misheppuð valdaseta stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eftir hrunið verið ennþá stærra spark í rassinn fyrir mig. Ég áttaði mig á því að án sterkrar andkapítalískrar sannfæringar, hjá stórum hópi almennings, getur vinstripólitík ekki náð neinum árangri í baráttunni við auðvaldið.“

 

Fyrir hverja er námsstofan/aðgerðastofan sem þú ætlar halda í RóSu í sumar?

„Alla sem eru gagnrýnir á kapítalískt þjóðskipulag.“

 

Spurning frá samkennara, Hafdísi Erlu: „Hvar sérð þú RóSu eftir 10 ár? eða 20?“

„Sem einn anga af stórri, skipulagðri vinstrihreyfingu með tugþúsundi meðlima útum allt land. Sem starfar utan þings og vinnur jafnt að afnámi kapítalisma, heimsvaldastefnu, feðraveldis, rasisma og náttúrueyðingar. Í þágu lýðræðislegs sósíalisma þar sem öll sameiginleg gæði eru í sameiginlegri eigu.“

 

Viðar Þorsteinsson stundar doktorsnám í hugvísindum og hefur verið virkur í ýmsu pólitísku félagsstarfi frá því kringum árið 2000. Hann stofnaði Róttæka sumarháskólannn sumarið 2011.

This entry was posted in Nei hæ! – Umsjónarfólk 2013 kynnir sig, Róttæki sumarháskólinn 2013. Bookmark the permalink.

Comments are closed.