Námsstofa um forréttindi

Hefur þú engin forréttindi? Skilur þú ekki hvað jaðarsettir hópar (sem þú tilheyrir ekki) eru alltaf að kvarta? Þá er þetta námsstofa fyrir þig.

Þriðjudaginn 19. nóvember kl. 20:00 stendur Róttæki Sumarháskólinn fyrir sjálfsrýni í námsstofu um forréttindi og forréttindastöðu. Námsstofan fer fram í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121 í Reykjavík (JL húsið), á 4. hæð.

Öll höfum við einhver forréttindi og það er mikilvægt að við áttum okkur á forréttindastöðu okkar til þess að við endurframleiðum ekki þau kúgandi kerfi sem við erum að reyna að brjóta niður.

Hildur, Íris, Pontus og Ugla halda stutt innlegg um forréttindi og að vera stuðningsmanneskja (ally) út frá eigin reynslu í bland við umræður og leiki.

Fólk sem notar hjólastóla er beðið að athuga að það er lágur þröskuldur við innganginn að rými ReykjavíkurAkademíunnar á 3. hæð sem gæti verið hindrun.

Þau sem hafa verið „konfronteruð“ vegna kynferðislegrar misnotkunar eru ekki velkomin á þennan viðburð.

Öruggara rýmis stefna:

  • Þegar maður tekur þátt í umræðum um málefni jaðarsetts hóps er gott að hafa í huga
  • Hver er staða og forréttindi mín gagnvart öðrum í hópnum? Er ég gagnkynhneigður/hinsegin, kona/karl, innlendur/erlendur, menntaður/ómenntaður, trans*/cis, o.s.frv.
  • Að tala bara fyrir sjálfa/n mig. Það gildir sérstaklega ef ég hef mikil forréttindi saman borið við aðra í hópnum. Forðast að alhæfa um samfélagshópa sem ég tilheyri ekki og/eða segja þeim hvernig þau eiga að haga baráttu sinni.
  • Að stíga til baka (eða stíga fram). Ef ég er manneskja sem yfirleitt tala mikið og á það til að dómínera umræðum þá er gott að ég íhugi að stíga aðeins til baka og hlusti meira en venjulega. Við viljum að þetta sé rými þar sem fólki sem finnst oft ekki þægilegt að taka mikið pláss finnist það öruggt til að tala meira.
  • Við forðumst að lýsa ofbeldi og höfum ávallt í huga að þolendur geta verið til staðar. Ef okkur finnst mikilvægt að tala beint um ofbeldi sækjumst við eftir samþykki hópsins og notum efnisviðvaranir. Við segjum þolendum aldrei hvernig þau eiga að höndla sína reynslu.
  • Ef að þér er bent á að þú ert að fara yfir mörk annarra og/eða þér er bent á að þú ert að tala fyrir annað fólk þá vinsamlegast reyndu að taka þeirri gagnrýni vel og forðast að fara í vörn, heldur hlusta á það sem þér er bent á og taka það alvarlega. Við gerum öll mistök, það sem skiptir mestu máli er hvernig við bregðumst við.

Hafið þið ekki hugmynd um hvað við erum að tala? Tékkið á þessu:

This entry was posted in Fréttir og tilkynningar, Vetrardagskrá 2013-2014. Bookmark the permalink.

Comments are closed.