RóSu 2015

Í Róttæka sumarháskólanum 2015 verður boðið upp á fjölbreytt og áhugavert efni. Alls verður boðið upp á 13 námsstofur en 3 þeirra verða  á ensku og eru lýsingarnar á þeim jafnframt á ensku. Lengd flestra námsstofa er 1 klukkustund og 45 mínútur en ein þeirra nær yfir meira en eina kennslustund.

Í lok dagskrárinnar verður haldinn sérstakur uppskerufundur þar sem öllum áhugasömum gefst færi á að segja skoðun sína á RóSu 2015, bjóða sig fram til frekari verkefna, og almennt ræða um stöðuna.

Staðsetningin í ár er ný og verður RóSu 2015 að þessu sinni haldinn í Múltí Kúltí á Barónstíg 3, 101 Reykjavík sem er steinsnar frá Hlemmi. Fullt aðgengi er í húsnæðinu.

Á RóSu 2015 verður boðið upp á mat, líkt og í fyrra, í sérstöku matarhléi sem yfirleitt verður milli 19:15 og 20:00. Maturinn verður ókeypis og framreiddur af sjálfboðaliðum úr vistvænum hráefnum. Ef maturinn klárast er stutt fyrir gesti að fara niður í 10-11 sem er hinu megin við götuna við Múltí Kúltí.

Líkt og áður verður tekið við frjálsum framlögum til að eiga fyrir ýmsum kostnaði, sér í lagi vegna húsnæðis, matar, plakatagerðar og vefhýsingar. Langtímamarkmið fjáröflunarinnar er að færa út kvíar RóSu, til dæmis með því að bjóða erlendum fyrirlesara eða að geta fært hluta af starfseminni út á land.

Framkvæmdahópur sem skipaður var í kjölfar RóSu 2014 annaðist skipulagningu Róttæka sumarháskólans 2015. Í honum sitja Sólveig Anna Jónsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Pontus Järvstad, Viðar Þorsteinsson, Berglind Rós Gunnarsdóttir, Jón Pálsson og Hrönn Guðmundssdóttir.

Leave a Reply