RóSu 2018

Róttæki Sumarháskólinn 2018 verður haldinn dagana 20.-26. ágúst í Múltí Kúltí á Barónsstíg 3, 101 Reykjavík. Inngangur með ramp er innarlega hægra megin við húsnæðið og er salernið með aðgengi fyrir þau sem nota hjólastóla.

Í ár verður boðið upp á fjölbreytt og áhugavert efni eins og fyrri ár en alls eru 14 námsstofur sem verður lýst nánar í þessu skjali. Af fjórtán námsstofum verða sjö á ensku og ein til viðbótar á bæði ensku og íslensku en lýsingarnar á þeim eru jafnframt aðgengilegar á ensku. Lengd allra námsstofa er 1 klukkustund og 45 mínútur.

Á RóSu 2018 verður boðið upp á mat, líkt og í fyrra, í sérstöku matarhléi sem yfirleitt verður milli 19:15 og 20:00. Maturinn verður ókeypis og framreiddur af sjálfboðaliðum úr vistvænum hráefnum. Ef maturinn klárast er stutt fyrir gesti að fara á matsölustaði eða verslanir í nágrenninu, t.d. í 10-11 sem er hinum megin við götuna við Múltí Kúltí.

Líkt og áður verður tekið við frjálsum framlögum til að eiga fyrir ýmsum kostnaði, sér í lagi vegna plakatagerðar, vefhýsingar og matar. Langtímamarkmið fjáröflunarinnar er að færa út kvíar RóSu, til dæmis með því að bjóða erlendum fyrirlesara eða að geta fært hluta af starfseminni út á land.

Framkvæmdahópur sem skipaður var í kjölfar RóSu 2017 annaðist skipulagningu Róttæka Sumarháskólans 2018. Í honum sitja Berglind Rós Gunnarsdóttir, Jón Bragi Pálsson, Hildur Harðardóttir, Katrín P. Þorgerðardóttir, Lára Jóhannesdóttir, Logn Þorgerðard., Óðinn Þórarinsson, Pétur Stefánsson og Pontus Järvstad.

Námsskrá

Stundaskrá

Um umsjónarfólk námsstofa

Leave a Reply