Um Róttæka sumarháskólann 2012

 • Róttæki sumarháskólinn leitast við að tengja saman róttækan aktívisma og hugmyndir. Með róttækum aktívisma er átt við baráttuna fyrir efnahagslegu réttlæti, umhverfisvernd, femínisma, lýðræði og réttindum minnihlutahópa, svo dæmi séu nefnd. Með hugmyndum er átt við hvers kyns mannlega hugsun, hvort sem hún eru listræn, fræðileg, eða sprottin beint úr reynslu hversdagsins.
 • Róttæki sumarháskólinn byggir alfarið á sjálfboðavinnu og frumkvæði áhugasamra einstaklinga. Umsjón með Róttæka sumarháskólanum sumarið 2012 hefur Viðar Þorsteinsson. Skrifið Róttæka sumarháskólanum línu á sumarhaskolinn@gmail.com
 • Af hverju róttækur? Róttæki sumarháskólinn kallar sig ‘róttækan’ vegna þess að innan hans er unnið út frá því leiðarstefi að árangur í réttlætisbaráttu náist ekki nema með grundvallarbreytingum.
 • Af hverju háskóli? Róttæki sumarháskólinn kallar sig ‘háskóla’ vegna þess að hann tekur menntun alvarlega og vill vera eins og góður háskóli: gagnrýninn, ókeypis og öllum opinn án skilyrða.

Nám í Róttæka sumháskólanum

 • Námsstofur og námskeið Róttæka sumarháskólans eru opin öllum, þar með talið þeim sem litla eða enga reynslu hafa af pólitískum aktívisma. Engar kröfur um fyrri skólagöngu eða starfsreynslu eru gerðar til þátttakenda.
 • Ekkert þátttökugjald þarf að greiða. Skriflegt námsefni, þar sem við á, verður aðgengilegt gjaldfrjálst í gegnum internetið. Tekið er við frjálsum framlögum, og þeir sem eru aflögufærir eru sérstaklega beðnir um að leggja sitt af mörkum.
 • Kennsla í Róttæka sumarháskólanum fer fram í svokölluðum „námsstofum“ sem hver um sig að jafnaði 110 mínútur og undir stjórn eins eða fleiri umsjónarmanna. Sumarið 2012 eru 14 námsstofur í boði. Námsstofum er venjulega skipt upp í fyrirlestur og umræður. Tímasetning hverrar námsstofu er tiltekin neðst í lýsingu hennar. Í ár verður einnig tími gefinn fyrir sérstök pallborð þar sem nokkrir umsjónarmenn námsstofa koma saman og taka þátt í samræðu við þátttakendur á víðari nótum.
 • Námsstofur eru haldnar í samkomusal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121 í Vesturbænum í Reykjavík (gamla JL-húsið á horni  Hringbrautar og Eiðsgranda/Ánanausta). Húsnæðið er á fjórðu hæð en er aðgengilegt með lyftu.

Skráning í námsstofur

Ekki er skilyrði að hafa skráð sig til þess að mæta í námsstofur Róttæka sumarháskólans. Þess er þó óskað að áhugasamir tilkynni um þátttöku sína, einkum til að þeir geti fengið aðgang að námsefni í tæka tíð. Það er hægt að gera í gegnum tölvupóst eða Facebook.

Tölvupóstur: sendið tölvupóstskeyti á netfangið sumarhaskolinn@gmail.com og tilgreinið þá námsstofu eða námsstofur sem þið hafið áhuga á að sitja.

Facebook: Finnið ‘viðburð/event’ viðkomandi námsstofu á Facebook og staðfestið þátttöku með ‘Ég mæti/Attending’ hnappnum. Þátttekendur fá síðan námsefni sent í gegnum þá samskiptaleið sem þeir velja, tölvupóst eða Facebook.

Vinsamlegast skráið ykkur annað hvort í gegnum tölvupóst eða Facebook, ekki bæði!

One Response to Um Róttæka sumarháskólann 2012

 1. Aðalbjörg Sigþórsdóttir says:

  Málstofurnar sem ég hef áhuga á eru þessar
  Hið kynjaða sjálf: Ráðandi kynjahugmyndir og áhrif þeirra og hitt heitir Femínismi, aktívismi og internetið

Leave a Reply