RóSu 2013

   

Róttæki sumarháskólinn (RóSu) hóf göngu sína sumarið 2011, með tólf námsstofum um róttæk fræði og aktívisma. Viðfangsefnin voru allt frá anarkisma og femínisma til kennslufræði og neysluhyggju. Sumarháskólinn var haldinn að nýju sumarið 2012 með svipuðu sniði, þá með fjórtán námsstofum. Á meðal nýrra viðfangsefna voru náttúruvernd, verkalýðsbarátta og neytendasamvinna.

Nú er Róttæki sumarháskólinn haldinn í þriðja sinn, með svipuðum fjölda námsstofa og áður. Meðal nýrra málefna á dagskránni eru hinsegin aktívismi, olíuvinnsla, kjarnorkuvopn og matarpólitík.

Líkt og undanfarin sumur vinnur allt umsjónarfólk og skipuleggjendur í sjálfboðavinnu og án endurgjalds. Öll dagskráin, eins og fyrri ár, fer fram í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121 (JL-húsinu), á 4. hæð.

Í ár er bryddað upp á tveimur nýjungum: Fjórar námsstofur fara að þessu sinni fram á ensku, með umsjónarfólki sem heimsækir okkur frá Skotlandi og Bandaríkjunum. Hin nýjungin er að við bjóðum upp á svokallaðar „aðgerðaastofur.“ Í þeim er ætlunin að tengja það sem fram fer við aðgerðir og aktívisma með beinni hætti en áður. Markmiðið með aðferðastofum er þannig ekki bara að uppfræða, heldur að leiða til þess að þátttakendur taki höndum saman um frekara pólitískt starf í framhaldinu.

Róttæki sumarháskólinn byggir á þeirri reglu að kennslan er ókeypis og öllum aðgengileg. Engar kröfur eru gerðar til þátttakenda um menntun, bakgrunn eða reynslu. Námsefni, þar sem við á, er ókeypis, og aðgengilegt á netinu. Leitast er við að haga tímasetningu þannig að sem flest vinnadi fólk geti sótt námsstofur.

Í ár hefst dagskráin á virkum dögum klukkan 18:00, en á helgum klukkan 13:00. Lengd hverrar kennslustundar er ein klukkustund og 45 mínútur. Nokkar námsstofur verða kenndar í tveimur kennslustundum, og eru þær merktar sérstaklega í námsskránni.

Engrar sérstakrar skráningar er krafist á náms- og aðgerðastofur Róttæka sumarháskólans 2013. Boðun komu á Facebook-viðburð er vel þegin, en aðalatriðið er að mæta og taka sem flesta með sér!

Allir þátttakendur í RóSu2013 eru sérstaklega hvattir til að taka þátt í aðgerðastofunni, „Róttæki sumarháskólinn: Hvað hefur unnist? Hvert stefnum við?“ Þar verður rætt um stefnu og framhald Róttæka sumarháskólans.

Mikilvægasti bakhjarl Róttæka sumarháskólans er ReykjavíkurAkademían, sem hefur lagt skólanum til gjaldfrjáls afnot af húsnæði sínu þrjú sumur í röð. Þessi stuðningur er ómetanlegur, og er ein mikilvægasta forsenda þess að öll dagskrá RóSu er ókeypis.

Róttæki sumarháskólinn hlakkar til að hitta þig!

Comments are closed.