Um ReykjavíkurAkademíuna

Helsti stuðningsaðili Róttæka sumarháskólans frá upphafi hefur verið ReykjavíkurAkademían (RA). RA hefur lagt Róttæka sumarháskólanum til húsnæði, auk þess sem starfsfólk RA hefur aðstoðað við framkvæmd skólans. Róttæki sumarháskólinn á því RA mikið að þakka og án stuðnings hennar hefði framkvæmd sumarháskólans verið mun erfiðari ef ekki ómöguleg.

Hér fyrir neðan er stutt kynning á sögu og starfsemi ReykjavíkurAkademíunnar, sem hefur verið þýðingarmikil fyrir sjálfstætt starfandi og óháða fræðimenn á Íslandi árum saman.

RA er sjálfseignarstofnun sem byggir á fimmtán ára sögu félags sjálfstætt starfandi fræðimanna sem hafa búið sér til nánast einstakt hreiður fyrir sjálfstæðar rannsóknir í menningar- , hug og félagsvísindum á Íslandi. RA hefur frá stofnun árið 1997 hýst margvíslega starfsemi sem flokkast undir fræði- og menningarstarfsemi í víðri merkingu, m.a. ritun fræðiefnis fyrir almenning, ritun fagurbókmennta, samningu kennsluefnis, þýðingar fræðiefnis og fagurbókmennta, heimildamyndagerð, ritstjórn, prófarkalestur, bókaútgáfu, sýningahönnun, umfangsmikið ráðstefnuhald og svo mætti lengi telja. Jafnframt hafa fræðimenn innan RA stundað kennslu á ólíkum skólastigum, ekki síst stundakennslu á háskólastigi. Fræðilegar grunnrannsóknir innan ólíkra greina félags- og hugvísinda hafa allan þann tíma verið mikilvæg kjölfesta í starfseminni. Á því sviði hafa starfað nemar í meistara- og doktorsnámi, nýdoktorar og reyndir fræðimenn, margir með doktorspróf í sínu fagi og áralanga reynslu af rannsóknum.

RA getur hýst allt að 70 fræðimenn í einu og getur boðið upp á alls kyns vinnuaðstöðu allt frá stórum sem smáum skrifstofum fyrir einstaklinga til tímabundins athvarfs í bókasafni eða í sameiginlegum rýmum. Lögð er áhersla á gott aðgengi að netsambandi, prentun, skönnun og einfaldri tölvuþjónustu í sérstöku þjónustuveri.

Styrktarsamningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins og RA frá árinu 2011 kveður á um að RA veiti háskólastúdentum í framhaldsnámi, hérlendis sem erlendis, aðstoð og aðstöðu eftir föngum og veiti einnig samstarfsfélögum RA ráðgjöf og upplýsingar um fjármögnunarmöguleika, styrkumsóknir, rekstur rannsóknarverkefna og samstarfsmöguleika við fræðimenn innanlands sem utan. Síðustu ár hefur því verið rekin sérstök aðstaða fyrir framhaldsnema í erlendum sem og innlendum háskólum þar sem þeir fá tímabunda aðstöðu og aðgang að samfélagi RA á meðan þeir ljúka við lokaverkefni sín.

Á síðasta ári var stofnað til RannsóknarSmiðju RA en markmið hennar er að er að efla og styrkja akademískar rannsóknir innan RA.  Nýtt bókhalds- og launakerfi gerir RA kleift að bjóða upp á faglega umsýslu með verkefnum. Fræðimönnum innan RA gefst tækifæri til að sækja um erlenda styrki í nafni ReykjavíkurAkademíunnar og síðustu tvö ár hafa 4-6 fræðimenn að jafnaði verið á launaskrá RA við rannsóknir sem styrktar hafa verið af erlendu og innlendu rannsóknarfé.

Nánari upplýsingar um RA er hægt að nálgast á heimsíðunni www.akademia.is,  í síma 5628562 og svo er alltaf hægt að senda fyrispurnir í tölvupósti á netfangið ra@akademia.is

One Response to Um ReykjavíkurAkademíuna

  1. Pingback: Dagsetningar RóSu 2014 | Róttæki sumarháskólinn

Leave a Reply