Stefna

Stefna Róttæka sumarháskólans

Stefnan var samþykkt af framkvæmdahópi RóSu vorið 2014.

 1. Róttæki sumarháskólinn (RóSu) er skóli og hreyfing sem starfar í þágu jöfnuðar alls fólks, frelsis, fjölbreytileika og samfélagslegs réttlætis.
 2. RóSu starfar í anda róttæka vinstrisins, en beitir sér fyrir gagnrýni og lifandi samræðu um markmið og aðferðir þess. Í RóSu er hvatt til þess að nýta ólík sjónarmið og nýjar hugmyndir til að stunda sjálfsskoðun og sjálfsgagnrýni.
 3. Í starfi RóSu er reynt að tengja hugmyndir, gagnrýni og menntun við áþreifanlegt, pólitískt umbreytingastarf. RóSu vill stuðla að tengslamyndun milli fólks og hópa sem hafa skipulagningu róttækra aðgerða að markmiði sínu. Skólastarf RóSu leitast við að kynna róttæka vinstribaráttu sem víðast í þjóðfélaginu og framkalla nýliðun í henni.
 4. RóSu leggur áherslu á andkapítalisma, afnám heimsvaldastefnu, jöfnuð kynja, náttúruvernd, sjálfbærni, lýðræði og einnig andstöðu við kynþáttahyggju, feðraveldi og cis-gagnkynhneigðarhyggju. RóSu leitast við að tengja þessi baráttumál saman á innbyrðis styrkjandi hátt, og forðast að stilla þeim upp sem andstæðum eða keppninautum.
 5. Í starfi sínu leitast RóSu við að taka sérstakt tilliti til þeirra sem eru jaðarsettir vegna stéttar, kyns, þjóðernis, kynhneigðar eða annars. RóSu er opinn fyrir nýstárlegum og róttækum aðferðum til að efla þátttöku jaðarsettra hópa í starfinu.
 6. RóSu sprettur upp úr, og er hluti af, róttæku pólitísku grasrótarstarfi á Íslandi og stefnir að því að viðhalda öflugum tengslum við aðra róttæka hópa og samtök. RóSu er engu að síður rekinn sem óháð og sjálfstæð hreyfing og talar ekki fyrir hönd annars róttæks stjórnmálastarfs á Íslandi.
 7. Allt skólastarf í Róttæka sumarháskólanum er gjaldfrjálst, rekið í sjálfboða-vinnu og opið öllum án tillits til bakgrunns, reynslu eða menntunar. Undantekningu má gera á þessu ef uppákomur eru sérstaklega ætlaðar tilteknum hópum eða ef aðeins er rúm fyrir takmarkaðan fjölda, og skal þá auglýst skilmerkilega hvernig skráningu er háttað. Sé um námsefni að ræða, skal leitast við að dreifa því ókeypis.
 8. Af hverju kallar Róttæki sumarháskólinn sig háskóla?
  • Með orðinu „háskóli“ er ekki átt við að RóSu sé ætlaður þeim sem njóta sín í bóklegu námi í hefðbundnum skilningi menntakerfisins. RóSu byggir ekki á stigveldi milli nemenda og kennara eða stöðluðum samanburði á frammistöðu nemenda.
  • Í RóSu er reynt að gera ólíkum formum þekkingar og reynslu jafn hátt undir höfði, hvort sem hún sprettur úr aðgerðastarfi, listum og menn-ingu, daglegu lífi, eða rannsóknum.
  • Róttæki sumarháskólinn kallar sig háskóla vegna þess að hann hefur menntun og þekkingu í hávegum og vill vera eins og góður háskóli í samfélagi jöfnuðar: öllum opinn án skilyrða, gagnrýninn, gjaldfrjáls, herskár og hagnýtur.

Comments are closed.