Viðmið

Sameiginleg viðmið Róttæka sumarháskólans

Þessi viðmið lýsa því sem við teljum eftirsóknarvert andrúmsloft og samskiptahætti á opnum viðburðum Róttæka sumarháskólans. Tilgangur þeirra er að stuðla að líflegum og frjóum umræðum sem styrkja pólitískt umbreytingastarf, með aðgengileika og tillitssemi við sem flest fólk að leiðarljósi.

 • Rósu er vettvangur fyrir líflegar umræður og samræður og leitast við að laða fram raddir ólíks fólks og gera sem flestum kleift að láta í sér heyra óháð mælsku, tungumálakunnáttu eða raddstyrk. Við leitumst við að skapa umhverfi þar sem fólk sem venjulega hefur sig lítt í frammi geti verið öruggara að tjá sig. Því reynum við eftir fremsta megni að:
  • … vera meðvituð um hversu mikið og lengi við tölum og forðast að „halda ræður“ í umræðum, þó svo að tiltekið málefni liggi manni mjög á hjarta.
  • … gæta að því að sýna hvert öðru virðingu, hlusta á aðra og hamla ekki tjáningu annarra. Umsjónarfólk ber ábyrgð á því að stoppa þá af sem yfirgnæfa samræður eða hafa í frammi ógnandi, fordómafullt eða hatursfullt tal. Það skal ennfremur vera meðvitað um óorðaða sam-skiptavirkni sem kann að vera í gangi í umræðum og ræða hana opinskátt ef þörf er á.
  • … festast ekki í umræðum um hvort tiltekin barátta eigi yfirhöfuð rétt á sér, heldur beina sjónum að því hvað beri að gera. Til dæmis þýðir ekki að mæta á aðgerðastofu um andóf í tilteknum málum nema maður hafi áhuga á taka þátt í því. Efasemdir um réttmæti slíks andófs eiga heima annars staðar.
  • … taka því vel ef okkur er bent á að hegðun okkar standi í vegi fyrir opnum samræðum og/eða hamli tjáningu annarra.
 • Hjá Rósu reynum við að skapa öruggara umhverfi fyrir sem flesta óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, uppruna, húðlit, líkamlegu atgervi o.s.frv. Þess vegna:
  • … er ákjósanlegt, í aðgerðarstofum og smærri námsstofum, að biðja hverja og eina manneskju um að kynna sig og einnig að nefna með hvaða fornafni hún vill vera ávörpuð. Í umræðum er þar að auki gott að leyfa „hér og nú“ samskipti, þ.e. að skoðanir séu settar fram í trúnaði hópsins.
  • … notum við „trigger warnings“, þ.e. látum fólk vita ef að ætlunin er að segja frá eða sýna efni sem gæti framkallað óþægilegar minningar hjá fólki sem hefur mátt þola ofbeldi.
  • … hugum að því að róttæk málefni geta verið mjög persónubundin og á RóSu á að vera hægt að ræða allar hliðar mannlífsins. Gætum þess þó að umræður snúist ekki um persónulegar deilur milli einstaklinga.
  • … forðumst að alhæfa um samfélagshópa sem við tilheyrum ekki eða okkur skortir þekkingu á, að segja öðrum fyrir verkum eða hvernig þau eigi að túlka eða bregðast við óréttlæti í sinn garð. Þetta á sér-staklega við um valdaminni og jaðarsetta hópa.
  • … erum tilbúin að horfast í augu við eigin forréttindastöðu. Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga við slíka sjálfskoðun:
   • Hver er staða og forréttindi mín gagnvart öðrum í hópnum? Er ég til dæmis gagnkynhneigð/hinsegin, kona/karl, innlend/erlend, menntuð/ómenntuð, fötluð/ófötluð, heilshraust/heilsuveil, vinnufær/óvinnufær, cis/trans?
   • Hef ég mikil forréttindi saman borið við aðra í hópnum?
   • Ef ég er manneskja sem yfirleitt tala mikið og á það til að yfirgnæfa umræður þá er gott að ég íhugi að stíga aðeins til baka og hlusti meira en venjulega.

Comments are closed.