Kynlegar athugasemdir og öryggi kvenna í þjónustustörfum

Umsjón: Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir

Lýsing: Lögum samkvæmt á áhættumat á vinnustöðum að ná til allra þeirra þátta í starfsumhverfi sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi starfsfólks. Til dæmis er það skylda atvinnurekenda í byggingariðnaði að sjá til þess að öryggi starfsfólks sé tryggt með búnaði á borð við hjálma og jafnframt að sjá starfsfólki fyrir slíkum búnaði og tryggja að hann sé rétt notaður. En hvað með tilfinningalegt öryggi ungra kvenna í þjónustustörfum? Hvaða tæki hafa þær til að verjast áreiti og lítillækkandi framkomu við sín störf í auðvaldssamfélagi þar sem „kúnninn á alltaf að hafa rétt fyrir sér“?

Umsjónarkonur námsstofunnar stofnuðu Facebook-hópinn Kynlegar athugasemdir á vormánuðum 2014, en þar gefst fólki kostur á að halda eins konar opið bókhald yfir atvik þar sem kynjamismunun á sér stað. Í frásögnum hópsins má greina nokkur meginþemu, en eitt þeirra er lítillækkandi framkoma í garð ungra kvenna í þjónustustörfum. Aragrúi innleggja um þessi mál sýnir að kynbundið áreiti er landlægt vandamál innan þjónustugeirans og að öryggi kvenna í þessari starfsstétt varðar er verulega ábótavant. Í þessari málstofu verður sjónum beint að því kerfisbundna, samfélagslega vandamáli sem sögur þessara kvenna varpa ljósi á, og fjallað um úrræða- og öryggisleysi sem ungar konur í þjónustustörfum búa við í auðvaldssamfélagi karlaveldis.

Tími: Fimmtudagur 14. ágúst 17:30-19:15

Aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun er ágætt en þó eru tveir þröskuldar á leiðinni frá bílaplani og upp á 4. hæð. Aðgengileg salerni eru á 3. hæð.

Comments are closed.