RóSu 2014

Velkomin í Róttæka sumarháskólann 2014!

Líkt og fyrri ár verður RóSu haldinn í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar að Hringbraut 121, að þessu sinni dagana 13.-19. ágúst.

Sérstakt þema á RóSu 2014 er verkalýðsbarátta sem er rauður þráður í gegnum margar námsstofurnar í ár, en á dagskránni eru einnig viðburðir sem ekki tengjast þemanu.

Alls verður boðið upp á 11 námsstofur sem lýst er nánar í þessu skjali. Stundaskránna má sjá aftast í námsskránni. Af 11 námsstofum verða fjórar á ensku, og eru lýsingarnar á þeim jafnframt á ensku. Lengd flestra námsstofa er 1 klukkustund og 45 mínútur, en þrjár þeirra ná yfir meira en eina kennslustund og eru þær merktar sérstaklega í námsskránni.

Í lok dagskrárinnar verður haldinn sérstakur uppskerufundur þar sem öllum áhugasömum gefst færi á að segja skoðun sína á RóSu 2014, bjóða sig fram til frekar verkefna, og almennt ræða um stöðuna.

Á RóSu 2014 verður sú nýbreytni að bjóða upp á mat í sérstöku matarhléi sem yfirleitt verður milli 19:15 og 20:00. Maturinn verður ókeypis og framreiddur af sjálfboðaliðum úr vistvænum hráefnum. Ef maturinn klárast er stutt fyrir gesti að fara niður í Nóatún á jarðhæð í sömu byggingu og kaupa sér eitthvað matarkyns.

Allir gestir RóSu eru hvattir til að taka föstudagskvöldið 15. ágúst frá fyrir partí þar sem ætlunin er að slaka á yfir drykkjum, spjalla saman og kynnast. Partíið verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Líkt og áður verður tekið við frjálsum framlögum til að eiga fyrir ýmsum kostnaði, sér í lagi vegna matar, plakatagerðar, vefhýsingar og skrifstofuvara. Langtímamarkmið fjáröflunarinnar er að víkka út kvíar RóSu, til dæmis með því að bjóða erlendum fyrirlesara eða að geta fært hluta af starfseminni út á land.

Framkvæmdahópur sem skipaður var í kjölfar RóSu 2013 annaðist skipulagningu Róttæka sumarháskólans 2014. Í honum sitja Sólveig Anna Jónsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Íris Ellenberger, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Hildur Þóra Sigurðardóttir, Pontus Järvstad, Viðar Þorsteinsson og Áslaug Einarsdóttir. Á uppskerufundinum í lok RóSu 2014 munum við ákveða dagsetningu fyrir næsta aðalfund þar sem ný framkvæmdahópur verður kjörinn.

Comments are closed.