Verkalýðshreyfingin í sögu og samtíð: Umbætur, róttækni eða bylting?

Umsjón: Árni Daníel Júlíusson, Drífa Snædal og Magnús Sveinn Helgason

Lýsing: Námsstofan er samsett úr þremur fyrirlestrum og umræðum sem deilt verður niður á tvær kennslustundir við upphaf og lok dagskrárinnar. Fyrirlesarar munu sitja fyrir svörum sameiginlega.

 

Árni Daníel Júlíusson: Endurbótastefna og byltingarstefna – Tvær sálir verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu

Rekja má sögu flestra róttækra vinstri flokka með eitthvert fylgi sem nú starfa í Evrópu, t.d. í Danmörku, Hollandi og víða í Suður-Evrópu, beint til byltingarinnar sem kennd er við 1968. Eftir að yfirstandandi kreppa hófst 2008 hefur hlaupið mikill vöxtur í þann hluta verkalýðshreyfingarinnar sem berst gegn kapítalisma með andófi og uppreisnum, oft utan verkalýðsfélaga og hefðbundinna stjórnmálaflokka. Þetta á við hér á landi, á Spáni, í Portúgal, Grikklandi og miklu víðar. Jafnvel hafa orðið til glænýjir róttækir vinstri flokkar eins og Podemos á Spáni.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um söguleg tengsl verkalýðsbaráttu við róttækt pólitískt andóf í Evrópu. Meginstraumarnir í starfi verkalýðshreyfingarinnar allt frá dögum Parísarkommúnunnar árið 1870 hafa lengst af verið tveir: reformismi eða endurbótastefna og svo byltingarsinnaður radíkalismi eða byltingarstefna. Á tímabilinu 1890-1914 varð endurbótastefna ofan á í mörgum verkalýðsflokkum, meðal annars í hinum öfluga þýska sósíaldemókrataflokki sem greindi sig frá byltingarstefnu annarra flokka. Svíþjóð og Sovétríkin voru um miðja tuttugustu öld tákngervingar fyrir þá sigra sem verkalýðssinnuð stjórnmálabarátta vann, þótt með ólíkum hætti væri. Um 1968 hófst ný byltingaralda sem gekk þvert á bæði endurbótastefnu og stefnu margra byltingarsinnaðra kommúnistaflokkar. ’68 byltingaraldann leiddi til stofnunar nýrra róttækra vinstriflokka en einnig efldust mjög nýrri félags- og baráttuhreyfingar sem börðust til dæmis fyrir umhverfisvernd og réttindum kvenna og samkynhneigðra.

Þær róttækar hreyfingar í Evrópu sem mestum árangri hafa náð byggja á þessari arfleifð ’68 byltingarinnar, um leið og hinnar stóru spurningar um byltingu eða umbætur er ennþá spurt. Hvert er samspil umbótastefnu og byltingarhreyfingar í dag? Er hægt að samþætta endurbótastefnu og róttækni svo vel fari?

 

Magnús Sveinn Helgason: Ríkisvaldið og framtíðarríki verkalýðsins

Þessi fyrirlestur varpar ljósi á rætur „sænska módelsins“, fyrirmyndar norræna velferraríkisins, og hverjar forsendurnar séu til að verja eða endurreisa þetta módel í dag. Fjallað verður um þróun hugmynda sænsku sósíalistahreyfingarinnar um hvernig beita mætti ríkisvaldinu til þess að skapa framtíðarríki verkalýðsins, og þróun sósíaldemókrataflokksins í átt að umbótastefnu og áherslu á að bæta kjör alþýðunnar hér og nú, frekar en að stefna að byltingu.

Sænski sósíaldemókrataflokkurinn lagði áherslu á að endurskapa samfélagið sem alþýðuheimili, folkhem, sem tæki mark á öllum samfélagsþegnum og alþýðufólk gæti átt öruggt heimili og búið við mannsæmandi kjör. Alþýðuheimilið var svo aftur grundvallað á sátt á vinnumarkaði milli ríkisvaldsins, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem áhersla var lögð á framleiðniaukningu: Aðeins með því að auka framleiðni og afköst sænsks iðnaður myndi hann geta framleitt næg verðmæti til að tryggja allri alþýðu landsins batnandi lífskjör, mannsæmandi húsnæði og efnahagslegt öryggi. Á innan við hálfri öld þróaðist framtíðarsýn sænskra sósíalista úr því að vera sósíalískt fyrirmyndarríki alþýðunnar yfir í sósíaldemókratískt fjöldaneyslusamfélag.

Í fyrirlestrinum verður sú þróun sem lá til grundvallar þessari þróun greind og leitast við að svara því hvernig sænska verkalýðsstéttin sættist á málamiðlun við atvinnurekendur. Í því sambandi verður að líta til sænsku neytendahreyfingarinnar, samvinnuhreyfingarinnar, sem lék lykilhlutverk í því að móta hugmyndir sænsku verkalýðshreyfingarinnar um fyrirmyndarsamfélagið og það fyrirkomulag hagstjórnar og skipulag efnahagslífsins sem þjónaði alþýðunni best.

 

Drífa Snædal: Verkalýðshreyfingin og kvenfrelsið – sambúð eða fjarbúð?

Í fyrirlestrinum verður staða kvenna í dag innan verkalýðsfélaga og á vinnumarkaði sem enn er mjög kynskiptur sett í brennidepil. Hvernig hefur skipulag verkalýðshreyfingarinnar áhrif á baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna? Getur róttæk barátta fyrir jafnrétti fundið sér farveg innan rótgróinna stofnana eins og verkalýðsfélaga eða þarf róttæknin að koma utanfrá?

Í erindinu verða hin hefðbundnu stéttarfélög á almenna markaðnum skoðuð með kynjagleraugunum, og farið verður yfir hvar kynbundinn launamunur birtist og hvernig. Vinnumarkaðurinn er ekki aðeins kynskiptur varðandi laun heldur líka í aðbúnaði hefðbundinna kvennastétta og karlastétta. Því verður að skoða áskoranir jafnréttisbaráttunnar á vinnumarkaði út frá fleiri sjónarhornum en því sem birtist í launaumslaginu. Litið verður til Norðurlandanna og hvernig þar hefur tekist til að flétta kvenfrelsi inn í starf verkalýðshreyfingarinnar.

Þá verður rætt um hvernig uppbygging verkalýðshreyfingarinnar breyttist með sameiningu einstakra félaga, sem leiddi til þess að verkakvennafélögin liðu undir lok. Hvert var hlutverk þeirra og hvernig hefur það hlutverk skilað sér inn í hin blönduðu félög í dag? Störfuðu verkakvennafélögin í anda kvenfrelsis á sínum tíma og var það til bóta fyrir jafnréttisbaráttuna að sameina þau öðrum félögum?

Boðið verður upp á umræður að fyrirlestri loknum og þátttakendur eru hvattir til að mæta með eigin hugmyndir, spurningar og tillögur.

Tími: Miðvikudagur 13. ágúst 20:00-21:15; Mánudagur 18. ágúst 20:00-21:45

Aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun er ágætt en þó eru tveir þröskuldar á leiðinni frá bílaplani og upp á 4. hæð. Aðgengileg salerni eru á 3. hæð.

Comments are closed.