Dirty Wars: Kvikmyndasýning og umræður

Umsjón: Sólveig Anna Jónsdóttir

Lýsing: Árið 2013 komu út bókin Dirty Wars og heimildamynd með sama nafni eftir bandaríska blaðamanninn Jeremy Scahill. Scahill hafði áður gefið út bókina Blackwater: The Rise of the World’s Most Powerful Mercenary Army, en hún var mikilvægt innlegg í umræðuna um hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum og einkavæðingu hernaðar. Dirty Wars hefur hlotið mikla athygli og var myndin m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki heimildamynda. Dirty Wars segir frá leynilegum hernaðaraðgerðum bandaríska hersins í Afganistan, Sómalíu og Jemen sem sérstök deild innan hersins, Joint Special Opperations Command eða JSOC, stendur fyrir. JSOC sér meðal annars um að drepa fólk sem sett hefur verið á vígalista bandarískra stjórnvalda. Listinn er leynilegur, og dæmi eru um að jafnvel bandarískir ríkisborgarar hafi lent á honum, en hann á að innihalda hættulega óvini ríkisins og er samþykktur af forseta Bandaríkjanna.

Scahill fjallar um þessar aðgerðir og hættuna sem lýðræðinu og réttarríkinu stafar af því að ríkisvaldið taki sér óheft vald til að taka fólk af lífi án dóms og laga, og heyja leynileg stríð án þess að þingið hafi nokkuð marktækt eftirlit með. Þær aðgerðir sem Scahill lýsir í bók sinni og mynd eru allar hafnar yfir eftirlit þings og dómstóla og fara að mestu framhjá fjölmiðlum, og þar með almenningi. Dirty Wars hefur orðið til þess að vekja bandarískan almenning til meðvitundar um að þótt Barack Obama hafi lofað breytingum og lýst því yfir að stríðinu í Írak sé lokið, hafa litlar sem engar breytingar orðið á stríðinu gegn hryðjuverkum. Myndin er skylduáhorf fyrir áhugafólk um bandaríska utanríkisstefnu og baráttufólk gegn heimsvaldastefnu Vesturlanda. Að sýningu lokinni verður boðið upp á umræður og skoðanaskipti um efni hennar.

Tími: Sunnudagur 17. ágúst 17:30-20:45

Aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun er ágætt en þó eru tveir þröskuldar á leiðinni frá bílaplani og upp á 4. hæð. Aðgengileg salerni eru á 3. hæð.

Comments are closed.